• An Image Slideshow
  • An Image Slideshow
  • An Image Slideshow
  • An Image Slideshow
Lög

Þeir sem ekki tala íslensku eða hafa ekki náð fullu valdi á málinu eiga samkvæmt lögum rétt á að fá túlk endurgjaldslaust í dómsmálum og þegar sjúklingur leitar læknisaðstoðar. Túlkun stendur til boða við ýmsar aðrar aðstæður og hægt er að kaupa þjónustu túlka.

 

Réttur á túlkun

  • Í mörgum tilfellum er fenginn túlkur til að túlka samskipti hjá félagsþjónustu sveitarfélaga, stéttarfélögum, lögreglunni og fyrirtækjum.
  • Í leikskólum og grunnskólum eru túlkar oft fengnir til aðstoðar, til að mynda í foreldraviðtölum, og sér viðkomandi stofnun um að panta túlk og greiða fyrir þjónustuna. Hið sama gildir þegar túlka þarf samskipti við félagsþjónustu.
  • Túlkar eru ekki alltaf einstaklingum að kostnaðarlausu og er því ráðlagt að athuga stefnu hverrar stofnunar eða fyrirtækis varðandi greiðslu fyrir túlkun.
  • Ef óskað er eftir túlki þarf að koma fram hvaða tungumál viðkomandi talar því ekki nægir alltaf að skrá upprunaland.
  • Einstaklingur á rétt á að hafna þjónustu túlks.
  • Túlkur er bundinn þagnarskyldu við störf sín og er hlutlaus aðili.

 

Heimild: island.is

 

Lög um réttindi sjúklinga 1997 nr. 74 28. maí

II. kafli. Upplýsingar og samþykki.
Upplýsingar um heilsufar og meðferð.
5. gr. Sjúklingur á rétt á upplýsingum um:
a. heilsufar, þar á meðal læknisfræðilegar upplýsingar um ástand og batahorfur,
b. fyrirhugaða meðferð ásamt upplýsingum um framgang hennar, áhættu og gagnsemi,
c. önnur hugsanleg úrræði en fyrirhugaða meðferð og afleiðingar þess ef ekkert verður aðhafst,
d. möguleika á að leita álits annars læknis eða annarra heilbrigðisstarfsmanna eftir því sem við á um meðferð, ástand og batahorfur.
Þess skal getið í sjúkraskrá sjúklings að upplýsingar samkvæmt þessari grein hafi verið gefnar.
Upplýsingar samkvæmt þessari grein skulu gefnar jafnóðum og tilefni skapast og á þann hátt og við þau skilyrði að sjúklingur geti skilið þær.
Eigi í hlut sjúklingur sem ekki talar íslensku eða notar táknmál skal honum tryggð túlkun á upplýsingum samkvæmt þessari grein.

Heimild: http://www.althingi.is/lagas/nuna/1997074.html

Lög um mannréttindasáttmála Evrópu 1994 nr. 62 19. maí

I. kafli. [Réttindi og frelsi.]1)

6. gr. [Réttur til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi.]1)
1. Þegar kveða skal á um réttindi og skyldur manns að einkamálarétti eða um sök, sem hann er borinn um refsivert brot, skal hann eiga rétt til réttlátrar og opinberrar málsmeðferðar innan hæfilegs tíma fyrir sjálfstæðum og óvilhöllum dómstóli. Sé skipan hans ákveðin með lögum. Dóm skal kveða upp í heyranda hljóði, en banna má fréttamönnum og almenningi aðgang að réttarhöldunum að öllu eða nokkru af siðgæðisástæðum eða með tilliti til allsherjarreglu eða þjóðaröryggis í lýðfrjálsu landi eða vegna hagsmuna ungmenna eða verndar einkalífs málsaðila eða, að svo miklu leyti sem dómstóllinn telur brýna nauðsyn bera til, í sérstökum tilvikum þar sem opinber frásögn mundi torvelda framgang réttvísinnar.
2. Hver sá sem borinn er sökum um refsiverða háttsemi skal talinn saklaus uns sekt hans er sönnuð að lögum.
3. Hver sá sem borinn er sökum um refsiverða háttsemi skal eigi njóta minni réttar en hér greinir:
a. Hann fái án tafar, á máli sem hann skilur, vitneskju í smáatriðum um eðli og orsök þeirrar ákæru sem hann sætir.
b. Hann fái nægan tíma og aðstöðu til að undirbúa vörn sína.
c. Hann fái að halda uppi vörnum sjálfur eða með aðstoð verjanda að eigin vali. Hafi hann ekki nóg fé til að greiða lögfræðiaðstoð skal hann fá hana ókeypis ef það er nauðsynlegt vegna réttvísinnar.
d. Hann fái að spyrja eða láta spyrja vitni sem leidd eru gegn honum. Séð skal um að vitni, sem bera honum í vil, komi fyrir dóm og séu spurð á sama hátt og þau vitni sem leidd eru gegn honum.
e. Hann fái ókeypis aðstoð túlks ef hann skilur hvorki né talar mál það sem notað er fyrir dómi.
1)Samningsviðauki nr. 11, 2. gr.

Heimild: http://www.althingi.is/lagas/137/1994062.html

Lög um meðferð sakamála

2008 nr. 88 12. Júní

1. þáttur. Almennar reglur um meðferð sakamála.

I. kafli. Gildissvið laganna og dómendur í héraði.

12. gr. Þingmálið er íslenska.

Nú gefur maður skýrslu fyrir dómi sem kann ekki íslensku nægilega vel og skal þá ákæruvaldið sjá um að kalla til löggiltan dómtúlk. Sé ekki kostur á löggiltum dómtúlki er dómara rétt að samþykkja að annar hæfur maður annist þýðingu, en sá skal þá undirrita heit í þingbók um að hann muni rækja starfann eftir bestu getu og ber honum að staðfesta þýðingu sína fyrir dómi ef hún er vefengd.

Skjali á erlendu tungumáli skal að jafnaði fylgja þýðing á íslensku að því leyti sem byggt er á efni þess í máli nema dómari telji sér fært að þýða það. Þýðing skjals skal að jafnaði gerð af löggiltum skjalaþýðanda. Sé ekki kostur á löggiltum skjalaþýðanda má leggja fram þýðingu annars hæfs manns, en honum ber að staðfesta hana fyrir dómi ef hún er vefengd.

Ef maður, sem á að gefa skýrslu fyrir dómi, er ekki fær um að eiga orðaskipti á mæltu máli skal ákæruvaldið sjá um að kalla til kunnáttumann til aðstoðar. Um heit slíks manns og staðfestingu fer eftir ákvæðum 2. mgr. Dómari getur þó ákveðið í stað þess að eftir atvikum verði spurningar lagðar fyrir hlutaðeiganda eða hann svari þeim skriflega fyrir dómi.

Þann einn má kveðja til sem dómtúlk, þýðanda eða kunnáttumann sem er orðinn 20 ára að aldri. Að auki má dómtúlkur eða kunnáttumaður ekki vera vanhæfur til að taka starfann að sér, sbr. 6. gr. Dómari ákveður þóknun til handa dómtúlki, þýðanda eða kunnáttumanni og greiðist þóknunin og annar kostnaður vegna starfa hans úr ríkissjóði.

Heimild: http://www.althingi.is/lagas/nuna/2008088.html#g234